Um starfið1

Árið 2010 varð jarðskjálfti upp á 7 á richter nálægt höfuðborg Haiti, Port Au Prince. Landið er það fátækasta í vesturheimi og hamfarirnar gerðu vont ástand enn verra. Tugþúsundir barna misstu foreldra sína í skjálftunum og eftirköstum hans. Íslendingar lögðu hönd á plóg. Pétur Guðjónsson, upphafsmaður húmanistahreyfingarinnar á Íslandi, sem starfað hefur á Haiti áratugum saman setti á stofn munaðarleysingjaheimili fyrir 50 börn og með aðstoð þarlendra húmanista var öðrum 50 börnum komið fyrir hjá fósturforeldrum. Góðviljaðir Íslendingar, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar, hafa styrkt það frábæra starf sem þarna fer fram og með fjárframlögum frá Íslandi hafa börnin húsaskjól, fæði, klæði, lyf og komast í skóla. Fyrir aðeins 500 þúsund krónur á mánuði hefur verið mögulegt að halda þessum börnum uppi frá a-ö, þar sem velviljaðfólk á staðnum sinnir sjálfboðastarfi af krafti. Í byrjun mars 2012 fór ég, Sölvi Tryggvason á munaðarleysingjaheimilið og kynnti mér það stórkostlega starf sem þarna fer fram og hitti börnin, sem eru þakklát og lífsglöð, þrátt fyrir allt sem gengið hefur á í lífi þeirra. Nú ríður á að koma stöðugleika undir þessa starfsemi, svo að framtíð barnanna sé tryggð. Fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar sem vilja legga málefninu lið geta lagt inn á reikning hjá félaginu ,,samhyggð í verki” Hver einasta króna skilar sér beint til barnanna, þar sem nær allt er unnið í sjálfboðavinnu og tengiliðir á vettvangi gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gera líf barnanna gott.

[audio:http://www.haiti.is/wordpress/wp-content/uploads/2012/10/We-Are-The-World-25-For-Haiti-2010-Remake-Michael-Jackson-acoustic-cover-Tyler-Ward-and-Crew-www_flvto_com1.mp3]